Á hvaða leið eru stjórn LEB og formaður kjaranefndar?

240565571_10209534946966838_6097904863179023375_n

Höfundur Finnur Birgisson:

Kveikjan að ritun þessarar greinar er grein sem birtist á bls. 18 í Morgunblaðinu 19. júní s.l. eftir Sigurð Jónsson formann kjaranefndar Landssambands eldri borgara. Þótt sú grein eigi í orði kveðnu aðallega að gera grein fyrir „stefnumarkandi ályktun“ stjórnar LEB, þá verður það augljóst af lestri hennar að henni er ekki síður beint gegn þeim sjónarmiðum, sem málsókn Gráa hersins gegn ríkisvaldinu vegna tekjutenginga í almannatryggingakerfinu byggist á. – Sjónarmiðum sem njóta svo víðtæks stuðnings meðal eldri borgara að 33 af 55 félögum þeirra víðsvegar um landið gerðust stofnaðilar að Málsóknarsjóði Gráa hersins.

Áhersluatriði formannsins og stjórnar LEB
Í umræddri grein formanns kjaranefndar LEB komu í fyrsta skipti fram opinberlega upplýsingar um þessa stefnumarkandi ályktun stjórnar LEB um kjaramál eldri borgara. Eftirgrennslan á heimasíðu LEB leiddi síðan í ljós að þar var sett inn þennan sama dag tilkynning um samþykkt ályktunar, og hún birt þar ásamt persónulegri greinargerð formanns kjaranefndarinnar (NB: Ekki stjórnar LEB, ekki kjaranefndarinnar, bara formannsins), – og tekið fram að hvorttveggja hafi þá þegar verið sent öllum Alþingismönnum.

Vissulega er ýmislegt í ályktun stjórnarinnar óumdeilt. Þar er t.d. krafa um að upphæðir hjá TR verði látnar fylgja launaþróun og að bæta verði sérstaklega kjör þeirra eldri borgara sem verst eru settir. Besta leiðin til að bæta kjör lífeyrisþega (stjórnin notar þetta orð) segir hún að sé að hækka almenna frítekjumarkið úr 25 þús. kr. í 100 þús. á mánuði. Þessi atriði eru væntanlega óumdeild svo langt sem þau ná, þótt benda megi á að það myndi ekki síður hjálpa þeim lakast settu að hækka einfaldlega grunnupphæð ellilífeyris, t.d. upp í upphæð lágmarkslauna.

Stjórn LEB skrifar upp á skerðingarnar
En svo skilur á milli. Í ályktun stjórnarinnar kemur fram að hún telji að ekki eigi að fara þá leið að lækka skerðingarprósentur kerfisins. Hún tekur líka sérstaklega fram að hún geti fallist á að þeir sem hafa tekjur yfir 595.642 kr. á mánuði (upp á krónu!) fái engar greiðslur frá TR.

Með ályktuninni er stjórn LEB þannig að skrifa upp á og samþykkja tekjutengingarnar í almannatryggingakerfinu að öllu öðru leyti en því að hún vill hækka almenna frítekjumarkið. Hún lýsir því því beinlínis yfir að hún telji ekki rétt að lækka skerðingarprósenturnar og jaðarskattana. Meira að segja má leiða að því líkur að hún vilji bæta þar í, því að um leið og hún óskar eftir hækkun frítekjumarks og grunnupphæða lýsir hún yfir samþykki sínu á núverandi efri tekjumörkum í kerfinu, – þar sem allar greiðslur TR detta út.

Með þessu má segja að stjórn LEB stilli sér upp við hlið ríkisvaldsins en gegnt Gráa hernum og baráttu hans gegn tekjutengingunum í almannatryggingakerfinu.

Af hverju mátti ekki bíða landsfundar?
Nú stendur þannig á að 30 júní n.k. verður haldinn landsfundur LEB. Það er því óhjákvæmilegt að spurt sé hversvegna í ósköpunum stjórn LEB fer þá leið að samþykkja lykilályktun af þessu tagi og kynna hana út á við með þessu óðagoti þegar 11 dagar eru í að landsfundur samtakanna verði haldinn. Eðlilegra hefði auðvitað verið að stjórnin hefði lagt tillögu sína að kjaramálaályktun fyrir landsfundinn til umræðu og samþykktar.

En þeir sem til þekkja geta reyndar farið nærri um ástæðuna: Það lítur út fyrir að einhverjir í stjórninni hafa talið að lítil von væri til þess að ályktun í þessa veru myndi fást samþykkt á landsfundinum. Þeir hafi því viljað verða fyrri til að koma sjónarmiðum sínum í loftið og til vina sinna í stjórnsýslunni, áður en fulltrúum eldri borgara hefði gefist færi á að hafa áhrif á efni ályktunarinnar á lýðræðislegum vettvangi landsfundarins.

Hvað gengur þeim til?
Það vekur sérstaka athygli að forysta LEB að formanni kjaranefndar meðtöldum skuli einmitt núna misbeita aðstöðu sinni til að koma því til skila að þau styðji ekki málsókn Gráa hersins á hendur stjórnvöldum. Í grein sinni vílar formaður kjaranefndarinnar ekki fyrir sér að afflytja málstað Gráa hersins, þegar hann lætur að því liggja að barátta hans snúist um að „sá hópur sem best hefur kjörin geri kröfu … um að fá greiddar bætur að fullu án nokkurra skerðinga.“ Þetta er rangtúlkun, því eins og margsinnis hefur komið fram er það EKKI markmið Gráa hersins að fá allar skerðingar/tekjutengingar dæmdar ólöglegar. Markmiðið er að fá fram dóm um að núgildandi regluverk standist ekki og að þar af leiðandi verði að breyta því. – Það yrði síðan verkefni Alþingis og stjórnvalda að bregðast við dómnum og breyta regluverkinu.

Sérstaklega er það napurt að forysta LEB skuli ganga fram með þessum hætti á þessum tímapunkti, þegar lögmenn ríkisvaldsins eru í óðaönn að undirbúa málsvörn sína gagnvart málsókn Gráa hersins, sem tekin verður fyrir í héraðsdómi í haust. Með þessu er forystan að koma í bakið á þeim mikla fjölda eldri borgara, – skjólstæðinga sinna, – sem stutt hefur Gráa herinn í því að láta endanlega á það reyna fyrir dómstólum hvort tekjutengingar almannatryggingakerfisins standist ákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála.

Maður hlýtur því að spyrja sig: Hverra erinda eru einstakir forystumenn í samtökum aldraðra og formaður kjaranefndar LEB eiginlega að ganga?

Höfundur er varamaður í stjórn FEB-R
og stjórn Málsóknarsjóðs Gráa hersins.

Scroll to Top
Skip to content