Hæstiréttur Íslands hefur gefið leyfi til þess að áfrýjun þremenninganna í Gráa hernum gegn Tryggingastofnun ríkisins verði tekin fyrir í réttinum. Málið fer því ekki fyrir Landsrétt sem styttir málsmeðferðina verulega. Þetta mun aðeins vera í þriðja sinn sem mál fer beint til Hæstaréttar án viðkomu í Landsrétti.
Mál þremenninganna í Gráa hernum, þeirra Ingibjargar H. Sverrisdóttur, Sigríðar J. Guðmundsdóttur og Wilhelm Wessman, snýst um eignarréttarákvæði laga og skerðingar ríkisins á greiðslum frá Tryggingastofnun á móti tekjum úr lífeyrissjóðum í almenna lífeyrissjóðakerfinu.
Tilkynning Hæstaréttar barst síðdegis föstudaginn 4. mars sl. Búast má við að málið verði tekið fyrir í réttinum síðar í vor eða snemma hausts.
