Eldri borgarar komi að kjarasamningaborðinu

Kári Jónasson

Höfundur er Kári Jónasson
Fyrir ekki svo löngu síðan undirrituðu Öryrkjabandalagið og helstu samtök launamanna, eða ASÍ, BSRB, BHM og Kennarasambandið yfirlýsingu og kröfur um bættan hag öryrkja hér á landi.

Þetta var mjög ánægjulegur áfangi í samskiptum launþegasamtaka og öryrkja, og það verður svo að koma í ljós hver árangur og ávinningur af þessu verður fyrir öryrkja, því ekki veitir nú af að bæta kjör þeirra. Þessi yfirlýsing vakti athygli mína og leiddi hugann að því hversvegna þessi launþegasamtök hafi ekki undirritað álíka yfirlýsingu til að styrkja stöðu eldri borgara þessa lands. Þar er líka mikill óplægður akur, svo ekki sé meira sagt.

Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni á prenti að eldri borgarar ættu að koma að kjarasamningaborðinu, því eins og staðan er í dag hafa þeir ekkert um kjaramál sín að segja, þótt þeir séu hvorki meira en rösklega 45 þúsund talsins, og því með einum stærstu hagsmunahópum landsins. Þeir hafa sín landssamtök og innan þeirra er Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni lang stærst og öflugast með um 13 þúsund félagsmenn, hvorki meira né minna.

Eldri borgurum verði tryggð viðunandi kjör
Það má eiginlega segja að eldri borgurum sé hreinlega skammtað úr hnefa, án þess að eiga þess kost að koma á nokkurn hátt að því að semja um kjör sín. Í fjárlagafrumvarpi er slegið fram einhverri prósentutölu, þar sem oft er erfitt að átta sig á við hvað er miðað. Fyrir röskum tveimur árum hafði Ellert B. Schram þáverandi formaður FEB í Reykjavík frumkvæði að samtali um kjör eldri borgara við forsætisráðherra og í framhaldi af því var settur á laggirnar vinnuhópur til að kanna kjör þeirra. Þá kom í ljós eins og við var að búast að í svokallaðri lægstu tíund voru áberandi eldri borgarar sem flutt hafa hingað frá Austur Evrópu eða fjarlægum löndum, og eiga því lítinn rétt hjá Tryggingastofnun, en til að vera þar með full réttindi þarf viðkomandi að hafa átt hér lögheimili í 40 ár, og því er réttur þessa fólks, sem að meirihluta eru konur að mér skilst, ákaflega takmarkaður eftir kannski aðeins 10 – 15 ára dvöl hér sem íslenskir borgarar.
Til að koma til móts við þennan hóp hefur Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra lagt fram frumvarpi til að styrkja framfærslu þessa hóps. En megin atriði baráttu eldri borgara á auðvitað að vera að tryggja öllum 67 ára og eldri viðunandi kjör, þannig að þeir hafi að lágmarki til framfærslu sinnar, sömu lágmarks upphæð og er í gildandi kjarasamningum hverju sinni, að ekki sé nú talað um að þeirri hafi úr að spila jafn hárri upphæð og gert er ráð fyrir samkvæmt framfærsluútreikningum Hagstofunnar. Í dag næst hvorugt þessara markamiða, enda hefur þessi stóri hópur ekkert um kjör sína að segja. Ráðamenn vitna gjarnan í allskonar meðaltalstölur, og þá er gjarnan miðað við 65 ára aldur og uppúr, en á því aldursbili er fjöldinn allur enn í fullu starfi og þar á meðal mjög tekjuhátt fólk, sem skekkir myndina allverulega, og kemur það niður á þeim sem lægist sitja.

Hálfdrættingar á við alþingismenn
Til þess að allrar sanngirni sé gætt, þá hefur fjöldi eldri borgara vel til hnífs og skeiðar, en það er hinsvegar óhrekjanleg staðreynd að margir hafa það skítt, sem er ekki sæmandi íslensku þjóðfélagi.

Og talandi um meðaltöl og útreikninga þá hefur þingfararkaup alþingismanna hækkað um 125 % á ákveðnu árabili, en ellilífeyrir aðeins um helming þeirrar tölu. Það er því ekki að ósekju sem Grái herinn hefur sett á stofn málsóknarsjóð til að standa straum af málaferlum til að fá úr því skorið hvort skerðing almannatrygginga standist stjórnarskrá og mannaréttindasáttmála. Það er vissulega neyðarúrræði að fara þessa leið, og hún verður bæði löng og erfið. Því er mikilvægt að eldri borgarar stand þétt saman í þessu máli.

Það væri að æra óstöðugan að telja upp öll þau hagsmunamál sem samtök eldri borgarar þurfa að berjast fyrir, svo sem vegna skerðingar bóta þegar þeir stunda launaða vinnu. Ekki er úr vegi að minnast á atvinnu- og tekjumissi margra vegna Covid faraldursins. Þá rann upp fyrir mörgum að þeir sem náð hafa 70 ára aldri og eru enn í vinnu eiga ekki kost á atvinnuleysisbótum og hefur svo verið í fjölda ára. Þar er því verk að vinna. Hinsvegar gátu þeir notið hlutabótaleiðarinnar, svo því sé haldið til haga.

Sanngirniskrafa eldri borgara í þessum pistli er því þessi; samtök launamanna slái álíka skjaldborg um eldri borgara og öryrkja og ríkisvaldið kalli fulltrúa eldri borgara að samningaborðinu til að fjalla um kjör þeirra og aðstæður.

Höfundur er leiðsögumaður og eldri borgari.

Scroll to Top
Skip to content