Fyrsta fyrirtaka dómsmálanna þriggja sem þrír félagar í Gráa hernu hafa höfðað á hendur TR og ríkinu fór fram í Héraðsdómi Reykjavikur síðdegis í gær í miðju kófi.
Það hefur tekið óratíma að þoka þessum málum áfram og ástandið í þjóðfélaginu hefur auðvitað haft sitt að segja.
Málin voru þingfest 28. apríl sl. Ríkislögmaður skilaði greinargerðum 29. september sl. Þótt þar sé ekki krafist frávísunar, eru gerðar athugasemdir við formhlið málsins.
Það eru þau Ingibjörg Sverrisdóttir, Sigríður Guðmundsdóttir og Wilhelm Wessman sem höfða málin með stuðningi Málshöfðunasjóðs Gráa hersins. Til sjóðsins hafa runnið framlög frá einstaklingum og félögum, en mestu munar um stuðning Verslunarmannafélags Reykjavíkur, sem lýst hefur sig bakhjarl Málshöfðuðnarsjóðsins og þegar stutt verkefnið myndarlega.
Við fyrirtökuna lagði Flóki Ásgeirsson, lögmaður Málsóknarsjóðs Gráa hersins, fram tvö ný skjöl, tvær umsagnir um frumvarpið til laga nr. 116/2016, en ekkert var lagt fram af hálfu ríkisins. Málinu var frestað til 11. desember nk. til að ríkið geti tekið afstöðu til framlagðra gagna og eftir atvikum aflað frekari gagna sjálft. Í þinghaldinu 11. desember má jafnframt gera ráð fyrir því að tekin verði ákvörðun um hvernig farið verði með athugasemdir ríkisins um formhlið málsins.
Stefnur félaganna þriggja er að finna með því að smella á þennan hlekk hér á heimasíðu Gráa hersins. Þar er rakin saga lífeyrissjóðakerfisins og samspil við ellilífeyriskerfi ríkisins, þar sem skýrt kemur fram að lífeyrissjóðirnir voru og eru ætlaðir sem viðbót við opinbera kerfið og að stórtækar skerðingar á greiðslum þaðan vegna aðildar að lífeyrissjóðum séu brot á eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar og almennum mannréttindum.
Ríkislögmaður heldur því fram í greinargerðum sínum að þetta sé allt sögulegu misskilningur og niðurstaða málshöfðunarinnar geti haft í för með sér lækkun á greiðslum frá TR miðað við breytingar sem gerðar voru árið 2016.
Pétur Dam Leifsson, dómari, fer með málin. Einar Karl Hallvarðsson, ríkislögmaður, var fulltrúi ríkisins við þinghaldið en frá Gráa hernum voru viðstödd þau Þorbjörn Guðmundsson, formaður Málsóknarsjóðs, Ingibjörg Sverrisdóttir, formaður FEB, Erna Indriðadóttir og Helgi Pétursson.