Stofnun Málsóknarsjóðs Gráa hersins undirbúin

Málsóknarsjóður

Á aðalfundi Félags eldri borgara í Reykjavík var samþykkt tillaga frá undirbúningshópi Gráa hersins um að stofna Málsóknarsjóð Gráa hersins til að standa straum af málsókn gegn ríkinu vegna tekjutenginga lífeyris almannatrygginga.

„Undirritaðir félagar í FEB og Gráa hernum, sem unnið hafa að undirbúningi málsóknar gegn íslenska ríkinu vegna tekjutenginga lífeyris almannatrygginga, áforma að stofna sjóð sem hefði þann eina tilgang að standa undir kostnaði af málarekstrinum.

Vinnuheiti sjóðsins á þessu stigi er Málsóknarsjóður Gráa hersins. Nú þegar liggur fyrir loforð um 1 millj. kr. framlag frá Verslunarmannafélagi Reykjavíkur, en í framhaldinu verður leitað eftir framlögum frá öðrum stéttarfélögum og samtökum og hafin fjársöfnun meðal einstaklinga.

Ætlun okkar er að sjóðurinn verði sjálfstæður með sérstaka skipulagsskrá og stjórn og uppfylli skilyrði laga nr. 19/1988. Við teljum að þannig verði fullkomið gagnsæi og öryggi í starfsemi sjóðsins tryggt, þannig að hann geti notið óskoraðs trausts bæði þeirra sem styðja hann með framlögum og þeirra sem munu eiga hagsmuni undir honum.

Við leggjum það hér með til við aðalfund FEB að félagið veiti þessu málefni stuðning í verki með því að gerast stofnaðili að Málsóknarsjóðnum og leggja til hans stofnframlag.

9. febrúar 2019,
Finnur Birgisson
Ingibjörg Sverrisdóttir
Wilhelm Wessman“

Scroll to Top
Skip to content