Vel skal vanda sem lengi skal standa.

Wilhelm Wessmann, graiherinn.is

Höfundur: Wilhelm W.G.Wessman:

Málaferlin gegn ríkinu er í raun í fyrsta skiptið sem eldriborgarar bjóða ríkinu byrginn gegn skerðingum á kjörum eldriborgara og broti á 72.gr. stjórnarskrárinnar og 14.gr.mannréttindasáttmála Evrópu. Spurt er, er það ekki verkefni LEB að sjá um kjaramál eldriborgara? Rétt er það, en þar hefur verið fátt um svör þegar spurt er af hverju er ekki tekið á skerðingum sem geta verið allt uppí rúm 72%. Allur krafturinn virðist hafa farið í að sinna þeim sem minna mega sín, sem er að sjálfsögðu góðra gjalda vert, en sem heildarsamtök ber þeim að sinna okkur sem erum skert niður að fátækramörkum og ævisparnaði okkar rænt.

Stutt yfirlit um Málsóknarsjóð Gráa hersins og aðdragandann að stofnun hans.

Ég hef barist fyrir því að skerðingar væru afnumdar síðan 2012, fyrst sem einyrki, en frá 2016 þegar Grái herinn var stofnaður innan raða hans. Til þess að gera langa sögu stutta var mikið talað en litlu komið í framkvæmd hvað varðaði skerðingar. Í lok árs 2018 hófum við samstarf Ingibjörg Sverrisdóttir, Finnur Birgisson og undirritaður. Það má segja að við höfum tekið verkefnið föstum tökum strax frá byrjun. Eitt fyrsta verkefnið var að sannreina hverjir vildu í raun styðja verkefnið það myndarlega fjárhagslega að það væri mögulegt að hefjast handa. Með einnar miljón krónu framlagi frá VR var mögulegt að fara af stað, en ein miljón er bara dropi í hafið, reikna má með að það kosti hátt í 15 miljónir að koma málinu í gegnum öll þrjú dómstig.

Næst var að semja skipulagsskrá fyrir Málsóknarsjóð Gráa hersins og safnað rúmum tólfhundraðþúsundum til þess að fá hana þinglýsta þannig að allt væri löglegt og gegnsætt.

Við leituðum til allra félaga eldriborgara á landsvísu, en þau eru 52. Af þeim svöruðu 33 félög kalli okkar og gerðust stofnfélagar. Þannig safnaðist stofnféð.

Við sömdum við Lögmannsstofu Magna, lögmennina Daníel Isebarn Ágústsson og Flóka Ásgeirsson, til að sinna málarekstrinum.

Næsta skref var að safna framlögum bæði frá Verkalýðsfélögum og einstaklingum og hefur okkur tekist að standa í skilum við lögmannsstofuna hingað til.

Nokkur verkalýðsfélög hafa nú þegar lagt til fjármagn; Framsýn á Húsavík, Verslunarmannafélag Reykjavíkur, Rafiðnaðarsamband Íslands og Félag málmiðnaðarmanna á Akureyri og skorum við á fleiri að leggja okkur lið í þessu máli.

Stóri áfanginn náðist þegar VR ákvað að tryggja málsókn Gráa hersins 26.maí s.l.

Við þrjú sem höfum stigið fram og höfðað mál fyrir allra hönd eru: Sigríður Guðmundsdóttir, Ingibjörg Sverrisdóttir og Wilhelm Wessman, Mál okkar eru mismunandi, en saman gefa málin líka heildstæðari mynd af ágöllum kerfisins og afleiðingum þess fyrir alla lífeyrisþega sem eiga réttindi í lífeyrissjóðum, óháð hjúskaparstöðu og því hvort uppsöfnuð réttindi í lífeyrissjóðum eru mikil eða tiltölulega lítil.

Við höfum öll skrifað undir samning við sjóðinn um að við höfum engan fjárhagslegan ávinning fram yfir aðra, ef málið vinnst.

Öll okkar vinna er unnin í sjálfboðavinnu og þar með gerð heimasíðu Gráa hersins og umsjón með FB síðunni, sem þau Maríanna Friðjónsdóttir og Helgi Pétursson hafa unnið, ásamt markaðsmálum.

Wilhelm W.G.Wessman

Scroll to Top
Skip to content